Remo bassatrommuskinn - samanburður Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

Remo bassatrommuskinn - samanburður

eftir Jóhann Hjörleifsson & Benedikt Brynleifsson


Á dögunum gerðum við samanburðarpróf á nokkrum algengustu bassatrommuskinnunum frá Remo í 22" stærð.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um gæði Remo trommuskinna en þau hafa verið staðalbúnaður trommulalteikara frá því að Remo Belli kom með þau fyrst á markað fyrir rúmum 50 árum síðan.

Ástæða þessarar könnunar hjá okkur var annarsvegar að prófa nýjasta bassatrommuskinnið frá Remo, "Powerstroke Pro" og bera það saman við hið hefðbundna "Powerstroke 3" bassatrommuskinn og hinsvegar að endurnýja kinnin við eldri (ódempuðu) gerðirnar; Ambassador, Emperor og PinStripe.

Við notuðum sömu Yamaha Recording Custom 22"x16" bassatrommuna við prófun allra skinnanna, bæði með Ebony Ambassador framskinni með stóru (10") miðjugati og Ebony Powerstroke 3 skinni með minna hliðargati.
 

Að skinnunum:

Framskinnin sem við prófuðum voru Powerstroke 3 með litlu hliðargati og Ebony Ambassador með 10" miðjugati
Við vorum sammála um að betri útkoma var í öllum tilfellum með Powerstroke 3 framskinni með litlu hliðargati. Það skapaði meiri botn í trommuna og dýpri tón. Ambassador skinnið með miðjugatinu kom vissulega vel út líka, þó ekki eins vel að okkar mati. Framskinn með stærra miðjugati getur þó oft hentað betur á trommu sem er notuð uppmækuð í hljóðkerfi þar sem auðveldara er fyrir hljóðmann að hafa vald yfir botninum í henni. Powerstroke 3 framskinnið í frekar djúpri stillingu bauð þó mjög auðheyranlega upp á mestan botn í okkar trommu.

alt1. Coated Powerstroke 3 - Eitt lag 10 mil mylar filma með dempunarhring í jaðrinum innan á.
 
Þetta skinn hefur verið í uppáhaldi hjá okkur báðum lengi og kom mjög vel út eins og við var að búast. Það býður einhvernvegin upp á hina fullkomnu blöndu af botni og góðu "punch-i". Það má segja að Powerstroke 3 sé hið fullkomna bassatrommuskinn í flokki "plug and play" skinna. Lítið þarf að úthugsa sjálfa dempunina inn í trommunni og skinnið hefur gott spila "response".

Þetta skinn kemur á bassatrommum frá flestum framleiðendum í dag í clear útgáfunni og virðist vera orðið "standard" bassatrommuskinnið í trommuheiminum í dag.

alt2. Emperor Clear - Tvö lög af 7-mil mylar filmu.

Emperor skinnið var að koma virkilega vel út og rifjaðist upp fyrir Jóa að hann hafði eingöngu notað þessi skinn á bassatrommuna á sínum tíma.
Þar sem ekki er nein innbyggð dempun í þessu skinni fer hljómurinn alveg eftir því hvernig þú sjálfur dempar trommuna. Ef það er rétt gert hljómar þetta skinn alveg frábærlega. Hljómnum er best lýst sem miklum botni ásamt því að hafa hæfilegan topp líka. Spila-svörun er virkilega góð og að okkar mati mun betri en á Powerstroke skinnunum.

alt3. Pinstripe Clear - Tvö lög af 7-mil mylar filmu.
 
Þessi skinn er nokkurn veginn eyrnamerkt Yamaha Recording Custom línunni frá því Steve Gadd notaði þau árum saman. Til gamans má geta að Pinstripe koma enn á RC settunum frá verksmiðju. Hljómurinn er mjög svipaður og í Emperor Clear skinninu. Pinstripe skinnið virðist þó ekki bjóða upp á alveg jafn mikinn botn og Emperor skinnið en hefur sömu góðu spila-svörunina.  Þar sem þetta skinn er tvöfalt eins og Emperor má segja að það sé mikill vinnuhestur og ætti að endast vel og lengi.

alt4. Coated Powerstroke Pro - Eitt lag 10-mil mylar filma. Svamphringur er festur á skinnið í jaðrinum spilamegin, til dempunar.

Þetta skinn er nýjasta afurðin frá Remo á bassatrommuna. Fyrirmyndin er án efa hið vinsæla Emad skinn frá samkeppnisaðilanum Evans. Það verður í sannleika sagt að segja að þetta skinn olli okkur smá vonbrigðum. Hljómurinn var mun harðari og botn-minni en við höfðum gert ráð fyrir. Það var vissulega botn í sándinu en hann var einhvernvegin frekar "loðinn" og ekki nægilega kraftmikill. Það vantaði einhvernvegin líka alla miðjuna í hljóminn í skinninu. Spila-svörunin var svo ekki góð fyrir okkar smekk, einhvernvegin lin og þung. Við vorum sammála um að skinnið væri kannski of dempað frá framleiðanda eða að það hreinlega hentaði trommunni okkar ekki nægilega vel.

alt5. Coated Ambassador - Eitt lag 10-mil mylar filma.

Þetta skinn er jafn sígilt og ostur ofan á brauð.
Sennilega má segja að Coated Ambassador skinnið sé alveg á hinum endanum frá Powerstroke dempunarskinnunum þrátt fyrir að það noti sömu 10 mil mylar filmuna.
Hljómurinn er ekki mjög þykkur en býður samt upp á góðan botn. Hann getur þó verið full harður fyrir suma. Það má segja það sama um þetta skinn eins og hin ódempuðu skinnin að hljómurinn veltur mikið á því hvernig tromman sjálf er dempuð að innan.
Þetta er án efa hentugasta skinnið til að nota ef menn eru að leita eftir "vintage" bassatrommu sándi og án efa besta skinnið til að nota á litlar 18" bassatrommur í hárri bebop stillingu.

Nokkur orð um skinnaplástra (Impact Patch, Falam Slam)
 
Með öllum Remo bassatrommuskinnum fylgir skinnaplástur til að líma á skinnið þar sem bassatrommuslegillinn slær.alt Þessir plástrar eru til að styrkja skinnin og auka líftíma þeirra. Það er allt hið besta mál en þeir gera líka annað í leiðinni og það er að breyta hljómi trommunnar talsvert. Hljómurinn verður gjarnan aðeins harðari og mjórri en á móti verður hann sterkari og skýrari ásamt því að "attack" eykst. Að okkar mati eru þessir plástrar nokkuð öryggi á eins laga skinn (single ply) eins og Powerstroke 3, Powerstroke Pro og Ambassador. Þeir draga úr hættu á að maður slái í gegnum skinnið á miðjum tónleikum. Á tveggja laga skinnum (double ply), eins og Emperor og Pinstripe finnst okkur óþarfi að nota þessa plástra. Skinnin hljóma betur án þeirra að okkar mati og hættan á að tvöfalt skinn rifni í gegn er hverfandi.

Niðurstaða:

Rétt er að taka fram að öll þessi skinn sem við prófuðum hljómuðu mjög vel. Þessi niðurstaða endurspeglar okkar persónulega smekk og lýsir því hvernig skinnin hljómuðu á þessari ákveðnu 22"x16" Yamaha bassatrommu í sama herbergi. Það má vel vera að niðurstöðurnar væru eitthvað öðruvísi með aðra trommu í öðru herbergi. Niðurstaðan kom okkur sjálfum talsvert á óvart!

Í fyrsta sæti: Að okkar mati sigraði gamla góða Clear Emperor með miklum yfirburðum.
Það skinn hafði mestan botn, topp, punch og langbestu spila-svörunina. Satt best að segja brá okkur nett þegar við slógum á það fyrst og bros færðust yfir andlit :-)alt

Í öðru sæti kom svo Pinstripe (líka óvænt).
Það hafði alla sömu eiginleika og Emperor nema það bauð ekki upp á alveg jafn mikinn botn.

Í þriðja sæti kemur Coated Powerstroke 3.
Það er án efa besta skinnið til að henda á hvaða trommu sem er og fá strax gott bassatrommusánd. Það sem þó dregur það niður fyrir Emperor og Pinstripe að okkar mati er að það hefur ekki eins gott spila-"response" og "rebound". Samt frábært skinn í alla staði!

Í fjórða sæti lendir Coated Ambassador.
Það er dásamlegt skinn á sinn hátt og fyrsti kostur þegar leitað er eftir ákveðnu sándi. Það er samt kanski ekki alveg fyrsta val þegar um nútímalegt popp/rokk sánd er að ræða. Þess ber þó að geta að Coated Ambassador er frábært á bassatrommurí upptökum og skilar gjarnan meiri botni þar en önnur skinn. Það má líka geta þess að þetta er skinnið sem mjög margir spilarar nota eins og t.d. Steve Gadd ogDave Weckl.

Í fimmta sæti lendir Powerstroke Pro.
Það verður að viðurkennast að þetta skinn var ekki að falla að okkar smekk. Að okkar mati vantaði miðju og mýkt í hljóminn og spila-svörunin var alls ekki góð miðað við hin skinnin. Kraftur og hljóðstyrkur minkaði líka í trommunni með þessu skinni.

Við vonum að þetta hafi verið skemmtileg og gagnleg lesning og mælum með að þið finnið ykkur Remo trommuskinn við hæfi.
 

alt

Fyrir hönd Ásláttarakademíunnar:

Benedikt Brynleifsson
Jóhann Hjörleifsson


 
alt
Remo trommuskinn eru fáanleg á Íslandi hjá:

alt

Síðumúla 20. Reykjavík
Sími 591-5340

&

alt

Sunnihlíð 12 Akureyri
Sími 462-1415

                                                                                                                       Mars 2013   Jóhann Hjörleifsson & Benedikt Brynleifsson