Vector fetill Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

 

Vector fetill - prófun

eftir Halldór Lárusson September 2010


Vector fetill

Það var óneitanlega með smá eftirvæntingu sem ég tók við Vector fetlinum enda ekki búinn að heyra neitt nema jákvætt um hann hingað til. Ég var forvitinn að vita hvort umtalið ætti við rök að styðjast eða hvort þetta væri einhver bóla sem ekkert væri varið í þegar á hólminn væri komið (eins og ég hafði nú hugsað með mér eftir að ég sá hann fyrst á mynd fyrir um ári síðan).

 

Þess ber að geta að þegar ég pantaði fetilinn þá er þjónustan hjá Percussion Kinetics afskaplega góð og frábært að eiga við Göran Kjellgren og Gunnar Wenneborg sem eru aðalmenn fyrirtækisins. Göran og Gunnar eru báðir trommuleikarar sem kynntust í Berklee tónlistarskólanum í Boston um árið. Göran sem er hönnuður Vectorsins býr í Bandaríkjunum en Gunnar, með-hönnuður & markaðs og sölustjóri býr í Svíðþjóð. Þeir eru báðir Svíar og er hér um sænska hönnun að ræða en fetillinn er þróaður í Arizona, USA. Vectorinn er búinn að vera yfir 8 ár í vinnslu og var fyrst formlega kynntur á NAMM 2009 sýningunni. Síðan þá hafa verið gerðar smávægilegar endurbætur. Þess er gaman að geta að Pétur Östlund er góður vinur Gunnars og er að nota Vector fetil. 

Lýsing:

Er ég opnaði kassann var það fyrsta sem ég tók eftir hversu vel Vectorinn er byggður. Hann er greinilega enginn eftirbátur annarra topp fetla hvað það varðar. Sömuleiðis finnst mér aðlaðandi hvað hann er í raun einfaldur og hönnunin blátt áfram og „meikar mikið sens".

Taska fylgir fetlinum; skær gul með Vector lógóinu á, mjúk, fóðruð og með axlaról.

Fótborðið er breitt og langt og þó það sé hæl plata þá er tilfinningin ekkert ósvipuð og að spila á „longboard" fetil. Það er afskaplega þægilegt og nóg pláss (sérstaklega fyrir gaur eins og mig sem nota skó númer 46 – 47!) og mjög auðvelt að spila með hælinn niðri.

Stillilykill fylgir fetlinum þar sem sexkantur er á haus lykilsins sem notast á tvær skrúfur til að stilla fetilinn. Það þýðir að lykillinn er eina verkfærið sem þú þarft til að stilla Vectorinn.

Eitt smáatriði sem kannski skiptir ekki öllu máli er að á botnplötunni eru 3 göt (4cm, 5cm & 6cm) trúlega til að minnka þyngd og ryk og skítsöfnun undir fótborðinu. Hver kannast ekki við haug af ryki og skít milli fótborðs og botnplötu? Þetta skiptir kannski ekki öllu máli en flott pæling engu að síður. Undir allri botnplötunni er stamt gúmmí sem mér finnst einnig bera vott um að hugað er að öllu. Sjálfum er mér meinilla við franska rennilása undir fetlum sem maður er í eilífu ströggli með að rífa af mottunni eftir gigg.

Hefðbundin stillingHliðarstillingSlegillinn (beater) er ósköp venjulegur hvítur filt slegill.

Vectorinn er útbúinn einfaldri keðju sem fellur í nokkur tannhjól efst á snúningshjólinu og rennur síðan eftir mjúku filt efni niður hjólið. Fyrst þegar ég sá myndir af Vectornum fannst mér keðjan hálf veikluleg og var smeikur um að hún myndi ekki haldast á sínum stað og renna útaf hjólinu þegar maður færi virkilega að hamra fetilinn, stilltan í hliðarstöðu. En, þegar ég sá hvernig þetta í raun virkar þá reyndust þær áhyggjur óþarfar og eftir fyrstu prufun þar sem ég misþyrmdi honum í meira og minna þrjá tíma þá haggaðist keðjan ekki. Einnig hafði ég velt fyrir mér hvort ekki myndaðist mikið álag á keðjuna þar sem hún tendgist fótborðinu, sérstaklega í hliðarstillingu, sem gæti endað með að hún slitnaði. Það eru óþarfa áhyggjur þar sem lítil veltilega tengir keðjuna við fótborðið og sér til þess að ekkert álag sé á keðjunni og afstaða hennar ávallt rétt.  

Stillimöguleikar eru eftirfarandi:

· Gormastilling

· Afstaða slegils, fram og aftur óháð gormi (beater angle adjustment)

· Hægt að færa snúningshjólið (Cam) til hægri og vinstri á öxlinum.

· Hægt að færa slegilhaldara til hægri og vinstri á öxlinum.

· Hægt að skekkja fótborð til hliðar með því að losa eina skrúfu í hælplötu og færa snúningshjólið.

· Hægt að færa fetilfestinguna (hoop clamp) þar sem fetillinn festist á bassatrommugjörð til hliðar og þar af leiðandi þarf fetillinn ekki að vera fyrir miðju bassatrommunnar þó svo slegill slái á miðju trommunnar. S.s.: það er hægt að renna fetlinum til beggja hliða á bassatrommugjörðinni.

Semsagt; hann hefur flestar þær stillingar sem hágæða fetlar hafa....með meiru.

Hvernig virkar svo gripurinn?

Hefðbundin stillingÉg prófaði hann við tvö sett; eitt með einni tom uppi, einni niðri, hitt settið með tveimur toms uppi, einni niðri. Auðvelt var að koma honum fyrir og ég byrjaði með hann stilltan alveg á ská og til hliðar. Sérstaklega við settið með tveimur toms uppi, þá einfaldar hann lífið all verulega. Maður getur fært bassatrommuna umtalsvert til vinstri og snúið henni alveg beint fram þannig að vinstri tom er í beinni línu við sneril og þannig kemur maður floor tom bæði framar og nær sem og ride cymbala. Eins og ég er vanur að gera, þá sný ég alltaf bassatrommunni til hægri svo afstaðan við „venjulegan" fetil sé þægileg. Með Vectornum er það vandamál úr sögunni.

En skiptir þetta í raun einhverju máli? Já, svei mér þá. Mun þægilegra er að sitja við settið, öll afstaða beinni og eðlilegri og hægri helmingur settsins er allur nær og auðveldari að ná til.

Ég verð að viðurkenna að ég fékk nett kikk og upplifði töluverða „vááá" tilfinningu við að spila á hann. 

Hönnunin bak við Vectorinn er einföld og rökrétt. Að stilla gripinn er aðgengilegt og auðvelt, ekkert vesen. Þessi græja einfaldlega þræl virkar.

Það kæmi mér ekki á óvart ef hann myndi létta þeim lífið sem eiga við meiðsli að stríða t.d. í hnjám, fótum eða mjóbaki þar sem öll afstaða er mun eðlilegri og þægilegri og fetillinn skilar miklum krafti með lítilli fyrirhöfn.

Burtséð frá þessum einstöku eiginleikum Vectorsins þá er hann Stilltur til hliðarafskaplega mjúkur og hefur einstaklega mikinn hraða og slagkraft. Hann hefur snúningshjól (cam) þar sem öxullinn gengur í gegnum miðju hjólsins eins og t.d. á DW Turbo, Tama Rolling Glide, svarta hjólið á Pearl Eliminator o.s.frv.. Ég er yfirleitt hrifnari af fetlum þar sem öxullinn gengur í gegnum hjólið fyrir aftan miðju (eða framan, eftir hvernig maður lítur á það) samanber DW Accelerator, Tama Power Glide o.sv.fr. þar sem hröðun verður meiri er slegið er á bassatrommuna. En Vector fetillinn er einfaldlega svo mjúkur, hraður og kraftmikill að ég sakna einskis. Að auki er hann alveg hljóðlátur.

Það sem mér finnst mest aðlaðandi við Vectorinn er hversu aðgengilegt er að stilla hann, hversu einfaldur og "solid" hann er og hversu vel hann virkar. Honum tókst alveg að sannfæra mig og það verður örugglega langur tími þar til ég dreg annan fetil fram. Við skulum segja að eftir að hafa prófað Vectorinn þá skil ég fullkomlega viðbrögð Poogie Bell á þessu myndbandi 

Niðurstaða:

Vectorinn er frábær fetill sem hefur einstakar stillingar sem virkilega skipta máli og gera lífið bakvið trommusettið einfaldara og mun þægilegra en ég hef áður upplifað. Fyrir marga gæti ég trúað að þessi fetill myndi breyta miklu, sérstaklega hvað uppstillingu trommusetts varðar og þægindi. Vector fetillinn er ekki síðri að gæðum en þeir allra flottustu fetlar sem á markaðnum eru. Það er auðsýnilegt að hugsað er út í smæstu smáatriði og mikil vinna og hugsun lögð í hann. Þess vegna mætti alveg fylgja veglegri slegill fyrir þetta verð þó að sá sem fylgir sé fínn og ekkert upp á hann að klaga, en í samanburði við aðra hágæða fetla á markaðnum, virkar slegillinn svolítið gamaldags.

Það helsta sem mér finnst að, er að verðið er hátt og að ekki er komin tvöföld útgáfa af honum á markað en hún mun vera á teikniborðinu og væntanleg í framtíðinni.

Hafa þarf í huga að ef maður er örfættur þarf að panta vinstri fótar útgáfuna af fetlinum. Sá er á sama verði.

Verð:

€ 349,-

www.vectorpedal.com

 

-------------------------------------------------------------------------------------------