Kristján Einar Guðmundsson - Trommuleikari vikunnar 4.09 2010 Skoða sem PDF skjal Prenta út

altTrommuleikari vikunnar er Kristján Einar Guðmundsson sem hefur verið að gera hreint magnaða hluti með sveitum á borð við Momentum, In Siren, Polymental o.fl. Í gegnum tíðina hefur hann einnig leikið með sveitum á borð við Myrk, Potentiam, Vrolok, Kenya og Stjörnuryk.

Nýjasta plata Momentum, Fixation at Rest er nýkomin út en hún er sú þriðja frá sveitinni. Plata frá In Siren er í bígerð og Black Earth er ný sveit sem Kristján lemur húðirnar með þannig að nóg er að gera hjá Kristjáni þessa dagana. Við náðum tali af honum og lögðum fyrir hann spurningarnar okkar góðu:

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að tromma?

Vinir mínir í Hnífsdal keyptu sér ódýrt sett í frekar mikilli niðurníðslu og voru með það í skúrnum hjá sér að spila á það. Ég fékk að sjálfsögðu að grípa í kjuðana hjá þeim við einhver tækifæri og eftir það var ekki aftur snúið. Það er reyndar gaman að segja frá því að "snerillinn" á þessu setti var makkíntos dós (snerill fylgdi ekki settinu, en þeir dóu ekki ráðalausir bræðurnir). Þeir tveir enduðu á því að fara báðir meira út í gítarleik með tímanum og ég er að spila með þeim báðum í dag í In Siren og Momentum.

Hverjir voru helstu áhrifavaldar þínir?

Það var rosalegt rokk í gangi fyrir vestann þegar ég var að byrja að spila. Ég man tildæmis að fyrsta lagið sem ég spilaði með heima var Thunderstruck með AC/DC, síðan hlustaði ég gríðarlega mikið á Iron Maiden á þessum tíma og margt annað í þessum dúr. Ég held að fyrsti trommarinn sem ég spáði verulega í hafi verið Jimmy Chamberlin úr Smashing Pumpkins. Það var ekki lítið legið yfir Siamese Dreams plötunni sem dæmi, og ég er enn í dag heillaður af spilamennskunni hans. Í seinni tíð komu inn margir skemmtilegir trommarar einsog Gene Hoglan, Derek Roddy ofl.

Hvað er á döfinni?

Það er nóg að gerast hjá okkur í Momentum. Platan okkar "Fixation, at Rest" er tiltölulega nýkomin út og við erum með útgáfutónleika fyrir hana bókaða á Faktory, laugardagskvöldið 2 október. Um þessar mundir erum við líka að æfa okkur fyrir tónleika þar sem við spilum á Danshátíð Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Þar spilum við 4 lög undir dansverk sem heitir Waterfalls. þetta er laugardaginn 4 og sunnudaginn 5 september. Við erum einnig bókaðir á Airwaves þetta árið og síðan eru plön um mini túr eftir áramót.

altBlack Earth er annað band sem ég er í, og er að skríða uppúr startholunum um þessar mundir. Við erum búnir að taka upp 3 lög sem við settum á netið, og ég mæli með að flestir kynni sér á slóðunum hér neðst.

Hvernig græjur ertu að nota?

Ég er að spila á 15 ára gamalt DW green sparkle; 20x18 bassatromma , 10x8, 12x9, og 14x14 floor. í diskum er ég aðalega með Sabian HHX,HH og AAX. Fetillinn er gamall Yamaha fetill sem ég endurheimti af ebay af því að ég sá svo eftir honum frá því ég byrjaði að spila. Mjög þægilegur fetill.

Snerlar: Pearl ultracast 14"x4.5 og Pearl free floating maple 14"

Áttu einhver holl og góð ráð fyrir þá sem eru að byrja?

Ekki byrja á vitlausum enda. Mér finnst það skipta miklu máli. Ég hef oft lent í spjalli við marga trommara sem vilja spila hratt og vera rosalega tæknilegir helst í gær. Það er bara ein leið til að komast þangað og það er með því að byrja á byrjun og vinna sig upp. Það vill heldur enginn vera trommarinn sem getur ekki látið AC/DC lög grúva sæmilega þrátt fyrir að spila up-tempo tónlist að öllu jöfnu.

Takk Kristján!

Ljósmyndir af Kristjáni tók Guðný Lára Thorarensen

www.reverbnation.com/blackearthice

www.myspace.com/blackearthice