Ragnar Sigurjónsson - Trommuleikari vikunnar 11.09.2010 Skoða sem PDF skjal Prenta út

altRagnar Sigurjónsson, oft þekktur undir nafninu "Gösli" er trommari vikunnar hjá okkur. Ragnar var mikið áberandi í Íslensku tónlistarlífi á sjöunda og áttunda áratugnum og hefur leikið inn á ógrynni af hljómplötum. T.d. þegar stúdío Hljóðriti var opnað 1976 má segja að Ragnar hafi verið hústrommarinn þar á bæ allt til 1981. Það eru eflaust margir sem muna eftir honum bak við rauða Rogers settið sem hann notaði með Brimkló o.fl., en með þeirri sveit lék hann frá ´73 - 75 og áttu þeir ófaá "hittarana". Ragnar lék einnig með sveitum eins og Dúmbó Sextett og Steina (´63 -´69), Mánum (´70 -´73), Brimkló (´73 -´75), Mexico (´75 -´76), spilar með Stuðmönnum 1976 þegar Tívolí platan kom út, og svo aftur með Brimkló (´77 -´80).

Síðustu ár hafa Mánar og Brimkló vaknað aftur til lífsins og minnistæðir eru tónleikarnir í Laugardalshöll 2005 þar sem Ragnar lék með Mánum er þeir hituðu upp fyrir Deep Purple. Undanfarið hefur Ragnar verið að taka upp með Brimkló og verður gaman að heyra kappann lemja húðirnar þar.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að tromma?

7 ára gamall byrja ég í Barnaskóla Akraness. Ég sest þar við hliðina á dreng að nafni Reynir Gunnarsson sem er þræl músíkalskur og þar með eru örlög mín ráðin. 9 til 10ára erum við komnir með lítið tríó en þriðji guttinn er Karl heitinn Sighvatsson á hljómborð. Við spiluðum Jazz standarda og dægurlög þess tíma.

Hverjir voru helstu áhrifavaldar þínir?

Í upphafi voru það Gene Krupa og Joe Morello sem spilaði með Dave Brubeck Quartett. Síðan kemur Brian Bennett í Shadows til sögunnar og ekki má gleyma Pétri Östlund. Síðast en ekki síst var það altGunnar Jökull heitinn.

Hvað er á döfinni hjá þér?

Mánar hafa komið fram öðru hvoru síðustu misseri sem er alltaf jafn gaman og Brimkló gæti rumskað næsta vor sem er tengt tilvonandi heildarútgáfu. Undanfarið ca. eitt og hálft ár hef ég verið að spila á Cajon box frá Premier með Spottunum. Það hefur verið bráðskemmtilegt

Síðastliðin vetur hitti ég blásarana úr Dúmbó, þá Reynir og Jón Trausta. Við höfum hist einu sinni í viku ásamt Katli Bjarnasyni sem einnig er blásari. Þeir eru í flottu formi. Við settum saman prógram; Soul og rythm & blues lög frá árunum ´60 til ´70. Við fengum með okkur Sævar Ben á bassa, Baldur Ketilsson á gitar og Lárus skólastjóra Tónlistarskóla Akraness á píanó. Við æfðum eins og hundar, fengum svo Magna nokkurn Ásgeirsson til að syngja allann pakkann sem fór að vonum létt með það. Bandið var kallað Southlane Basement Band sem sýterar í gamlan æfingarstað í kjallara á Suðurgötuni á Akranesi. Við héldum tvenna tónleika á Skaganum

Hvernig græjur ertu að nota?

altYamaha Maple Custom Absolute 10" 12" 14" 22" bassatromma (djúp). Snerill er frá  DW drums USA Copper shell collectors series og svo annar Tama snerill 7 og 1/2" djúpur.  Cymbalar eru blanda frá Zildijan og Paiste. Bassatrommupedal á ég, sem er 1965 model af Ludwig Speed King og ég nota hann enn í dag.

Áttu einhver holl og góð ráð fyrir þá sem eru að byrja?

Einbeiting, spila afslappað, einfalt, finna bítið. Æfa, æfa, æfa, æfa, æfa, æfa. Halda tempói, ekki herða á sér. Trommubreik koma síðar, þau þurfa ekki að vera flókin en þurfa að falla vel að bítinu og ekki er verra að hafa dálitinn húmor í bland. Aldrei að troða inn breikum að óþörfu, sitja fastur á bítinu. Þetta er nú það fyrsta sem kemur upp í huga mér sem ráð  til ungra trommara í dag.

Takk Ragnar!