Scott McLemore - Trommuleikari vikunnar 1.10.10 Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

alt

Trommuleikari vikunnar hjá okkur er Scott McLemore. Scott hefur í nægu að snúast þessa dagana en það er verið að leggja lokahönd á nýju Thin Jim & the Castaways plötuna auk þess sem hann er að vinna að sólóplötu númer tvö og á fullu með ASA tríó. Einnig er hann að vinna með eiginkonu sinni, píanistanum Sunnu Gunnlaugs og er tónleikaferð um Evrópu á döfinni. Scott mun einnig koma fram á Trommarinn 2010 nú 16. október.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að tromma?

Ein af mínum fyrstu minningum úr barnæsku er sú að ég var að keyra með mömmu minni í Norfolk, VA (USA) og hún spurði mig á hvaða hljóðfæri mig langaði að spila. Útvarpið var í gangi og einhvern veginn fannst mér trommurnar skera sig úr svo að ég sagði "trommur". Henni hefur örugglega hryllt við þá hugsun að þurfa að hlusta á barnið sitt æfa á trommur svo að hún reyndi strax að telja mér hughvarf. Það hafði aftur á móti öfug áhrif. Ég var ca 5 ára þá og fyrir öll jól og afmæli eftir það bað ég um trommur. Þegar ég var 14 ára gerðum við samkomulag um að ég fengi trommur ef ég fengi góðar einkunnir í skólanum. Það var hvatning sem virkaði.

Hverjir voru helstu áhrifavaldar þínir?

Það eru margir sem hafa haft áhrif á mig í gegnum árin en til að hafa þetta hnitmiðað ætla ég að einskorða mig við trommara. Þessi síða heitir nú einu sinni trommari.is.

Minn fyrsti áhrifavaldur var Stewart Copeland, trommuleikari hljómsveitarinnar The Police. Áður en ég hafði eignast trommur stúderaði ég trommuleikara í myndböndum (í þá daga voru myndböndin aðallega af hljómsveitinni að spila) og trommurnar voru alltaf áberandi í myndböndum hjá Police. Hann er ennþá einn af mínum uppáhalds trommurum.

Ég kynntist frábærri fönktónlist þegar ég lék með hljómsveitinni Ant Man Bee. Ég var 16 ára þegar ég gekk í bandið og hinir strákarnir allir í kringum tvítugt og áttu fullt af plötum. Það var eiginlega eins og að fara í fönkskóla. Ég var mjög hrifinn af leik Andy Newmarks á plötunni "Fresh" með Sly Stone. Ég hafði aldrei heyrt annað eins.

Saxafónleikari Ant Man Bee gaf mér mína fyrstu jazzplötu "Change of the Century" með Ornette Coleman. Billy Higgins lék á trommur og þar með varð ég aðdáandi Higgins og Ornette fyrir lífstíð. "Rejoicing" með Pat Metheny er trúlega uppáhalds upptakan mín með Higgins.

Það sem virkilega vakti áhuga minn á jazzi (og löngun í að verða jazzleikari) var kvöld eitt sem ég treglega horfði á myndband sem pabbi hafði látið mig hafa. Hann var alltaf að gefa mér kassettur með gömlum jazzplötum sem lágu svo ósnertar. Ég hafði engan áhuga á hans skrítnu, gömlu tónlist. En í þetta sinn var það mynband svo að ég ákvað að gefa því tækifæri. Þetta var með fyrsta "standarda" myndband með tríói Keith Jarrett's og á trommur var Jack DeJohnette. Váaa! Ég hafði ekki hugmynd um hvað þeir voru að gera en ég vissi að það var stórkostlegt.

Það leiddi mig djúpt inn í heim ECM útgáfunnar og óviljandi fór ég að hlusta mikið á Jon Christensen. Dýptin í leik hans snertir mig enn í dag. Leikur Tony Oxley's frá sama tíma hafði einnig mikil áhrif á mig. Báðir eru sannir frumherjar.Joey Baron er trúlega minn stærsti áhrifavaldur. Ég held að ég hafi fyrst heyrt í honum með hljómsveitinni Naked City sem John Zorn leiddi. En kannski var það á plötunni "Is That You?" með Bill Frisell sem ég gaf pabba mínum. Áhrif hans á mig eru líklega efniviður í annað viðtal svo ekki sé meira sagt.

Tony Wiliams var mikill áhrifavaldur. "Nefertiti" með Miles Davis og "Four and More" voru þær plötur sem ég spilaði mest með. Og svo að sjálfsögðu Philly Joe Jones, Elvin Jones, Ed Blackwell... ég dáist að mörgum af trommurum fyrri tíma, en einnig Tom Rainey, Jeff Ballard, Kenny Wollesen, Jeff Williams, Jorge Rossy, Brian Blade, Jim Black, Bill Stewart.... sem ég var svo heppinn að sjá og heyra spila þegar ég bjó í New York.

Hvað er á döfinni?

Thin Jim er að vinna að nýrri plötu sem ætti að koma út fyrir árslok. ASA Trio er með tónleika 6. október í Risinu. Við erum að fara að hljóðblanda okkar fyrstu upptöku sem er tónlist eftir Thelonious Monk (það má hala ókeypis niður tveimur lögum frá tónleikum á http://asatrio.bandcamp.com). Við verðum í viðtali á RÚV í næstu viku og munum þá spila eitthvað frá upptöku sem við gerðum fyrir útvarpið. Ég mun fljótlega hljóðrita með Hauki Gröndal og Frelsissveit nýja íslands, en það er annað bandið sem ég hef leikið með sem hefur tvo bassaleikara. Það er erfitt að lýsa með orðum hversu svalt það er að spila með tveimur bassaleikurum. Það er tvöföld ánægja.

altKonan mín, Sunna Gunnlaugs, er að skipuleggja tónleikaferð um Evrópu og einnig tríóhljóðritun. Við hljóðrituðum smá á Seyðisfirði s.l. sumar en höfum ekki hlustað á það enn, en vonandi er nýr diskur í því efni.

Mín eigin sveit mun hefja æfingar fljótlega og undirbúa upptöku á mínum öðrum diski, en ég fyrst þarf ég að klára að skrifa tónlistina.

Hvernig græjur ertu að nota?

Ég nota aðallega Sonor Phonic (Rósarvið) sem ég held að sé frá árunum 1974-76. Það er elsta Phonic settið sem ég hef séð, því það er með svörtu merkjunum, en er ekki klætt að innan eins og þeir gerðu 1977. Það er nákvæmlega eins og settin frá 1973 nema með svörtum merkjum. Sneriltromman mín er frá 1983.

Symbalarnir mínir eru allir Bosphorus fyrir utan gamlan Sabian flat-ride með "RIVETS" Aðal ride-cymballinn minn þessa vikuna er Bosphorus Master Series Turk, sem er þynnri en venjulegur UNLATHED TURK. Ég nota vanalega litla keðju með honum fyrir svona sizzle effect.

Áttu einhver holl og góð ráð fyrir þá sem eru að byrja?

Hlustaðu á eins mikla tónlist og þú getur, og sestu niður gerður ekkert annað en að hlusta. Reyndu að komast inní tónlistina. Reyndu að heyra hvað er í gangi; hvað gerir það að verkum að þetta hljómar svona. Hlustaðu aftur á þá hluta sem þú skilur ekki. Hlusaðu af fullri einbeitingu, og reyndu að dæma ekki, reyndu að leyfa tónlistinni að vera og taka þig með hvert sem hún fer.

Reyndu nú að spila með. Ekki apa eftir því sem trommarinn er að gera (nema að það sé eitthvað sérstakt sem þú verður að læra), en reyndu að leggja eitthvað til og fylgja flæðinu. Fylgdu styrkleikunum og spennunni. Reyndu að hlusta á sama hátt og þegar þú varst ekki að spila með. Bregstu við því sem er að gerast, vertu með en sýndu líka frumkvæði.

Svona æfing býr nemandann undir að sýna innsæi og næmi. Tæknilegu hliðarnar eru líka mikilvægar en ekki eins erfiðar að skilja.

Takk Scott!

www.scottmclemore.com