Jón Geir Jóhannsson - Trommuleikari vikunnar 13.12.10 Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

altTrommuleikari vikunnar er Jón Geir Jóhannson sem er að gera frábæra hluti með hljómsveitinni Skálmöld. Jón Geir hefur komið víða við en hann hefur meðal annars leikið með listamönnum á borð við Ampop, Hraun, Bigga Bix og fleirum. Hann er ekki síður þekktur fyrir trommusmíði sína en þar hefur Jón Geir fetað ótroðnar slóðir og smíðað trommur m.a. úr álfelgum, plaströrum (Pvc) og pappahólkum. Við tókum hann tali þar sem hann var í Stokkhólmi á ferð með Skálmöld og lögðum fyrir hann spurningarnar okkar góðu:

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að tromma?

Ég hef trommað frá því ég man eftir mér og það var eiginlega ekkert annað sem kom til greina.

Hverjir voru helstu áhrifavaldar þínir?

Mínir stærstu áhrifavaldar eru án efa  Dýri (prúðuleikari) og Nicko McBrain (Iron Maiden). Ég hef alltaf hrifist af trommurum sem eru sýnilegir á sviði. Það er staðreynd að við spilum á hljóðfæri sem er mjög "physical" og það á að vera gaman að horfa á fólk spila á trommur. Ég mótmæli því að trommarar séu bara eitthvað "backdrop" fyrir gítarleikara og söngvara. Af íslenskum áhrifavöldum vil ég nefna tvo félaga mína frá Ísafirði, þá Kristján Frey (Reykjavik!) og Gunnar (911). Þeir eru báðir trommarar sem eru algjört akkeri í sínum böndum og spila það sem þarf, þannig að hvert slag skiptir máli. Á menntaskólaárum mínum þegar ég var að deyja úr yfirspilamennsku og "chop-rúnki" kipptu þeir mér niður á jörðina aftur.

Hvað er á döfinni hjá þér?

Ég er staddur i Stokkhólmi núna (innsk: 9 des 2010) með Skálmöld. Við erum ad spila hér í kvöld og svo í Sundsvall á morgun. Nýja platan okkar sem heitir Baldur kemur í búðir þann 15 Des. Við erum að vinna í að fylgja henni eftir á fullu.

altVið erum bókaðir á Wacken (stærsta þungarokkshátíð heims) næsta sumar sem er ótrúlegur heiður fyrir hljómsveit sem hefur bara spilað 5 tónleika og þar af 4 á Sódómu. Svo erum við að spila á G festival í Færeyjum og víðar.

Það er ótrúlega gaman að vera loksins farinn að spila þungarokk eftir að hafa verið í hinum og þessum popphljómsveitum. Það er alltaf gaman að spila en þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert.

Hvernig græjur ertu að nota?
 
Síðustu 7 ár hef ég bara notað mínar eigin trommur sem ég smíða sjálfur.  Ég hef haft þá venju að spila alltaf á nýtt sett á útgáfutónleikum nýrra platna og ég er núna að klára Skálmaldar-settið sem er samansafn af trommum sem ég hef fengið og raðað saman þannig að hver tromma hefur sinn karakter og komplimentar hinar. Þetta eru tvær 24x14" Birki bassatrommur, 10" pvc (plast) tom, 13" 5mm birki tom, 14" Tama B/B floor tom og 16" pvc floor tom. 

Ég er að nota talsvert þykkari cymbala núna en ég hef verið að gera med Ampop og Hraun, en samt vil ég hafa þá lifandi og músikalska en ekki bara eitthvað sem sker í gegnum hávaða. Það verður að vera pláss fyrir smáatriði og dínamík í þungarokki eins og annarri tónlist.
 
Áttu einhver holl og góð ráð fyrir þá sem eru að byrja?

Það sem ég lærði mest af þegar ég var að byrja var að spila með uppáhalds plötunum mínum og að taka reglulega upp sjálfan mig spila til að heyra og sjá hluti og galla sem þú ert ekki meðvitaður um meðan þú ert á fullu. Númer eitt, tvö og þrjú er að hafa gaman af því sem þú ert að gera og vera óhræddur við að sýna það. Það hrífst enginn með tónlistarmanni sem að leiðist og við getum ekki endalaust leyft söngvurum að taka alla athyglina því að trommarar eru mikið meira kúl!.
 
Takk Jón Geir!

http://www.myspace.com/skalmold