Gretsch Renown Maple Trommusett Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

GreTscH Renown Maple Trommusett - prófun

 

alt

 

Lýsing

Gretsch Renown Maple serían er nokkurs konar millitýpa í efri kantinum frá Gretsch. Flaggskip Gretsch er og hefur ávallt verið USA Custom, en síðan kemur New Classic línan, þá Renown Maple og Purewood settin og þar fyrir neðan ýmsar útgáfur af Catalina settunum og síðan Blackhawk settin sem er ódýrasta línan.

Gretsch Renown Maple settið sem ég fékk til prófunar er í eftirfarandi stærðum:

22"x18" bassatromma, 10"x8" tom, 12"x9" tom og 14"x14" floor tom, allar úr Hlyn (Maple)

Einnig fylgir settinu 14"x5" sneriltromma, einnig úr hlyn. Liturinn nefnist Deep Inca Gold og er lökkuð Gold Sparkle áferð. Bassatromman er "virgin" eða jómfrú, sem þýðir að engin tom tom festing er á henni þannig að 10" & 12" toms þurfa að hanga annaðhvort af cymbalastatífi eða tom statífi. Engin statíf fylgja settinu nema tveir tom haldarar og tvær multi-klemmur. Allar skeljar eru úr hlyn í gegn, nánar tiltekið Rock USA Maple og hafa 30 gráðu brúnir sem er eitt sérkenni Gretsch tromma og eru grámálaðar að innan einsog Gretsch USA Custom trommurnar hafa verið allar götur frá 1952. Í gegnum tíðina hefur hvílt mikil leynd yfir hvernig málning hefur verið notuð innan á Gretsch trommurnar en fyrir nokkrum árum kom það uppúr kafinu að á meðan Gretsch verksmiðjan var í New York, þá náðu menn sér í málningu í ofnaverksmiðju sem var staðsett hinum megin við götuna gegnt Gretsch verksmiðjunni og er því hinn frægi "Gretsch Silver Sealer" í raun hitaþolin ofnamálning! Hvort það er akkúrat sama málning sem notuð er innan á Renown trommurnar veit ég ekki. Að því mér skilst þá er settið framleitt í Taiwan eins og megnið af öllum trommustatífum á markaðnum í dag og eru Taiwan menn löngu búnir að sanna hæfni sína í trommuframleiðslu og statífaframleiðslu.

altAllur frágangur á settinu er til fyrirmyndar; lökkunin er óaðfinnanleg og persónulega finnst mér þessi litur Deep Inca Gold afar fallegur, ekki síst vegna hversu stórar gull flögurnar eru í lakkinu. Ég hef aldrei séð svona stórar flögur nema á klæddum settum, aldrei lökkuðum. Brúnirnar eru sömuleiðis óaðfinnanlegar, sléttar og mjög vel skornar.

Þegar ég stillti settinu upp þá tók ég eftir að þær eru ansi þungar, enda steyptar (die-cast) gjarðir á öllum toms sem spila eflaust inní. Allir löggar eru þeir sömu og á USA custom með þunnri gúmmífóðringu undir þannig að stálið snertir ekki skeljarnar. Einnig eru steyptar bassatrommuklær með gúmmífóðringu undir til að hindra að lakkið á bassatrommugjörðunum skemmist.

Settið kemur með Evans húðum; glært EMAD I á bassatrommu með svörtu front skinni. Glærar G2 eru ofan á toms með ómerktum glærum húðum að neðan. 

Frammistaða

Við fyrsta slag á bassatrommu þá skilaði hún þungum og massívum tón með miklum smelli. Persónulega er ég meira fyrir grynnri bassatrommur en þessi skilaði ákaflega góðum hljómi, ríkur, mikill og kraftmikill og auðvelt að spila á hana, þ.e. hún svarar vel. Ég átti lítið við stillinguna á henni, hún hljómaði einfaldlega dúndurvel einsog hún kom.

Tom Tom trommurnar hafa ríkan tón og langan enda útbúnar með GTS (Gretsch Tom Suspension), svona þeirra útgáfa af RIMS. Eins og bassatromman þá gáfu þær góðan smell og mikinn tón eins og hlyn trommur gera yfirleitt. Það var afar auðvelt að stilla þær sem gefur til kynna að brúnirnar séu vel skornar og sléttar og floor tomminn bókstaflega söng og drundi, þrátt fyrir að vera einungis 14". Það væri gaman að heyra hvernig 16" myndi hljóma. Það má geta þess að floor tom er útbúin sérstökum löppum; gúmmíið á enda lappanna er með holrými svo þær "fljóti" betur og skili opnari og meiri hljóm. Eftir hljómnum í trommunni að dæma þá virðist þetta virka mjög vel.

Þar sem ég er ntitleú haldinn nettu Gretsch blæti þá verð ég að viðurkenna að snobbarinn í mér hafði ákveðna fordóma gagnvart þessu setti í byrjun þar sem mér fannst þetta ekki vera "alvöru" Gretsch (eða USA Custom sem er mitt eftirlæti) og var alveg viðbúinn að verða fyrir vonbrigðum. En ég verð nú bara að viðurkenna að þetta sett gefur flestum, ef ekki öllum háklassa hlyn trommusettum ekkert eftir þótt sum hver séu meira en tvöfalt dýrari. Þetta er ekki sami hljómurinn og í USA Custom, enda eru þær skeljar úr blöndu af hlyn og gúmmitré (gum wood), eða það sem Gretsch kallar "formula shells". New Classic línan er einnig búin til úr blöndu af hlyn og gúmmítre og framleidd í Taiwan rétt eins og þetta Renown sett.

Ég flokka þetta sett hiklaust í sama klassa og dýrustu hlyn sett frá flestum öðrum framleiðendum, fyrir mun minni pening. Þetta sett hljómar einfaldlega mjög vel; mikill, hlýr og massívur hljómur og gefur flottan smell. Og það sem meira er; það sem ég leita alltaf eftir er hvort að trommurnar hljómi þannig að þær myndi eitt hljóðfæri, svona eins og strengir á gítar og þetta sett hefur einmtt þann kost, trommurnar hljóma saman eins og ein fjölskylda.

Ég notaði settið á einni æfingu með sex manna bandi og einu giggi. Settið var allt mækað upp og höfðu tveir trommarar er í salnum voru á orði hversu vel settið hafi hljómað fram í sal. Ekki hvarflar að mér að draga orð þeirra í efa. Eftir gigg tók ég eftir að settið hafði vanstillst svolítið og ein bassatrommustilliskrúfa hafði losnað það mikið að hún var næstum dottin af. Það væri vissara að nota einhverskonar búnað sem læsir stilliskrúfunum (lug locks, tune-safe, o.sv.fr.) svo það gerist ekki aftur.

Niðurstaða

Semsagt: ég get ekki annað en verið hrifinn af þessu setti. Að mínu mati jafnast það á við það allra besta sem er á markaðnum af hlyn (maple) trommum fyrir hreint frábært verð, eða 268.000 krónur, með sneriltrommu, tveimur tom höldurum og tveimur multi klemmum. Geri aðrir betur!

Settið er til sýnis og sölu í Tónastöðinni, Skipholti 50b   S: 552 1185

Verð: 268.000,-

 

Janúar 2011 Halldór Lárusson