Rúni W. Höjgaard - trommari vikunnar 26.06´11 Skoða sem PDF skjal Prenta út


altRúni W. Höjgaard er færeyskur trommari sem hefur heldur betur látið að sér kveða í Færeysku tónlistarlífi. Þessi 30 ára trommari stundar nú nám við tónlistarskóla FÍH en hann hefur trommað frá 15 ára aldri en þá eignaðist hann sitt fyrsta trommusett. Frá því hann man eftir sér hefur hann verið að berja á potta og pönnur og var að mestu sjálfmenntaður þar til hann hóf nám hjá Matthíasi Hemstock við FÍH skólann. Rúni er upptekinn maður, en auk þessa að spila og leggja stund á námið rekur hann hljóðfæraleigu í Færeyjum sem nefnist Rulio. Rúni hefur getið sér gott fyrir trommuleik með listamönnum á borð við Deja Vu (sem er okkur íslendingum vel kunnug), Danny Rasmussen, Debess Blues Station, Vestmenn o.fl. Við tókum hann tali og lögðum nokkrar spurningar fyrir hann:

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að spila?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á trommuleik og tónlist svo þegar ég fyrst tók upp kjuðana þá var það mér ákaflega eðlilegt. Mér leið einsog ég hefði alltaf verið trommuleikari þó ég væri nú ekki srtrax orðinn góður en þetta var einhvern veginn það eðlilegasta í heimi fyrir mig að byrja að tromma. Ég og nokkrir vinir mínir stofnuðum hljómsveit áður en ég eignaðist fyrsta settið mitt svo ég byrjaði strax að spila með öðrum. Þetta var ekkert sérstakt band fyrstu árin en sumir þessir félaga minna voru seinna með mér í Deja Vu.

Hverjir voru helstu áhrifavaldar þínir?

Ég gæti nefnt marga trommara en þeir þrír helstu eru Simon Phillips vegna þess hversu músíkalskur hann er og kraftmikill, ég einfaldlega elska tilfinninguna sem hann setur í trommuleikinn og trommuleikur hans í laginu "I Will Remember" af plötunni "Tambu" með Toto er ákaflega smekklegur og flottur. Að hann geti leitt bæði með vinstri og hægri hendi finnst mér tilkomumikið. Vinnie Colaiuta verð ég einnig að nefna. Hann er náttúrulega framúrskarandi teknískur en einnig svo smekklegur. Ef að hann spilar lag í t.d. 7 eða 9 skiptum takti þá lætur hann það hljóma svo eðlilega og áreynslulaust, eins og í laginu "Seven days" með Sting. Einn flottasti trommuleikur allra tíma að mínu mati. Svo verð ég að nefna Carter Beauford (Dave Matthews Band) sem hefur haft mikil áhrif á mig. Hann er fæddur örvhentur en spilar á rétthent sett. Stíllinn hans er svo flæðandi og opinn, mikið af smáatriðum í gangi hjá honum á ride-inum meðan hann leikur flott hi-hat pattern. Og tilbrigðin hans (fills) eru svo frábærlega flott. Svo verð ég einnig að nefna trommara eins og Ringo Starr, Steve Gadd, Jeffrey Porcaro, Mike Portnoy, Gene Krupa, Buddy Rich sem eina af mínum uppáhalds. Allir mjög ólíkir en allir jafn magnaðir.

Hvað er á döfinni hjá þér?

Eftir prófin í FÍH í maí þá fór ég heim til Færeyja þar sem ég verð í sumar að spila og vinna. Ég er í starfandi blússveit, Debess Blues Station og gáfum við út plötu um síðustu jól og tónleika DVD í mars síðastliðnum. Það er nóg að gera hjá okkur í sumar hér í Færeyjum og svo er verið að skipuleggja tónleikaferð um Skandinavíu og vonandi komum við einnig til Íslands í sumar. Svo er ég einnig í sveit með pabba mínum (hann er söngvari) sem nefnist Vestmenn. Við erum að fara að gefa út okkar fimmtu plötu í sumar.

Einnig er ég að vinna að lagi með pabba mínum sem nefnist "In the twilight". Ég hef stýrt upptökunum ásamt því að semja textann og sjá um allann trommuleik og áslátt. Írski Uilleann pípuleikarinn Davy Spillane (Braveheart, Bryan Adams o.fl.) leikur með okkur í laginu og kemur það út í sumar. Svo verð ég í session vinnu samhliða þessu.

altHvernig græjur ertu að nota?

Ég á tvö trommusett sem ég nota. 2002 Tama Starclassic Maple sett með fjórum mismunandi Starclassic sneriltrommum. Ég er með tvær bassatrommur fjórar toms og tvær floor toms. Með þessu móti get ég sett saman sett á ýmsan hátt. Mér finnst þessar trommur hljóma frábærlega. Þeta sett kalla ég nútímalega settið mitt. Svo á ég 1977 Ludwig sett. Það er standard 5 trommu sett með LM400 Supraphonic sneriltrommu.Þetta er vintage settið mitt. Ég nota bæði settin álíka mikið, fer eftir því hvað ég er að spila. Hvað symbala varðar er ég Zildjian maður. Ég á líka nokkra frá Paiste en ég er mikill aðdáandi gamalla Zildjian symbala. Ég keypti fyrsta gamla Zildjian symbalann fyrir 6 árum síðan og nú kaupi ég alla er ég rekst á. Safnið mitt samanstendur nú af 5 ride symbölum (einn er 26"!), 1 hi-hat, 1 swish, og 1 pang. Ég er einna hrifnastur af 14" hi-hattinum og 20" ride-inum. Það sama er hægt að segja um alla þá trommara sem prófa þá. En..ég sel þá aldrei, þetta eru djásnin mín!

Áttu einhver holl og góð ráð fyrir þá sem eru að byrja að spila?

Æfa sig. Aldrei vanmeta kosti þess að æfa sig og hversu mikilvægt það er. Stundum kvíði ég fyrir að fara að æfa mig því þetta getur verið svo einhæft, að endurtaka, endurtaka..aftur og aftur. Ég veit ég þarf að gera þetta, og halda því áfram. Eitt sinn heyrði ég góða setningu "The difference between winners and losers is that winners do things that losers won’t do” sem ég notfæri mér þegar ég æfi mig. Þegar mér finnst ekkert ganga hjá mér held ég bara áfram. Á endanum (sem getur verið mörgum klukkustundum eða dögum seinna) þá er ég allt í einu kominn með þetta! Þessi setning veitir mér huggun og hvetur mig áfram þegar ég æfi mig og er við það að gefast upp.

Svo er nauðsynlegt að hafa góðan kennara. Ég er svona náungi sem vil helst finna hlutina út sjálfur og ég get haldið þannig áfram í langan tíma án þess að leita ráða. Það er ekki auðveld leið. Kennari hefur reynslu af þessu sjálfur og getur stýrt manni í rétta átt og sparað manni tíma. Ég sé eftir að hafa ekki haft kennara þegar eg var að byrja. Kennari gerir ekki hlutina fyrir mann en hann sýnir manni leiðina og gefur manni góð ráð.

Spilaðu eins mikið og þú getur. Oft eru verst launuðustu giggin þau skemmtilegustu og gefa manni góða reynslu. Ég lít á þetta sem dýrmætan tíma til að öðlast reynslu og læra. Maður lærir hvað maður á að gera og það sem er enn mikilvægara; hvað maður á ekki að gera.

Lærðu sem mest um trommur og slagverk. Lærðu að spila, stilla, hvernig míkrófónar virka, hvernig á að halda trommunum við o.sv.fr. Trommari sem er með allt þetta á hreinu er það sem ég kalla "heilsteyptur tommuleikari". Ekki allir trommarar eru með þessa hluti á tæru, meira að segja margir góðir trommarar. En, þetta gæti gert gæfumuninn til að fá giggið, að vera með hlutina á tæru, að vera heilsteyptur.

Takk Rúni!
 

Tenglar:

Vefsíða Rúna: www.ruliodrummer.com
Hljóðfæraleigan: www.rulio.com
Rúni á youtube: http://www.youtube.com/watch?v=lVCjhWeINs8
Debess Blues Station
Danny Rasmussen
Deja Vu á myspace(ekki starfandi)