Guðmundur R. Einarsson - Heiðursviðurkenning Trommarinn 2011 Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

Trommarinn 2011 -  8. október 2011:

Guðmundur R. Einarsson heiðraður

Að þessu sinni var trommuleikarinn Guðmundur R. Einarsson heiðraður á Trommaranum 2011. Að því tilefni hélt bassaleikarinn, tónskáldið og samstarfsmaður Guðmundar til margra ára,Tómas R. Einarsson tölu Guðmundi til heiðurs. Hún birtist hér í heild sinni: 

altFyrir þremur áratugum skrifaði ég BA ritgerð í Háskóla Íslands um fyrsta blómaskeiðið í íslenskum djassi, frá 1947 til 1955, og las djassblöð frá þeim tíma og spjallaði við marga sem þá höfðu spilað. Þá komst ég að því að Guðmundur R. Einarsson hafði verið aðaltrommarinn í þeirri miklu djasssveiflu, margoft kosinn trommari ársins og jafnan bak við sneril þar sem stórtíðindi gerðust. Þær upptökur sem kalla má fyrsta alvörudjassinn spilaðan af Íslendingum, frá árunum 1948 og 1949, með Gunnari Ormslev á saxófón og Árna Elfar á píanó, skarta Guðmundi á settið og breikið sem hann fær með burstana á fyrstu upptökunni með Árna og Gunnari sýnir líka að hann var orðinn meira en sleipur með burstana 21. nóvember 1948, þá tæplega 23 ára gamall. Hann var líka við settið þegar altsaxistinn Lee Konitz og básúnuleikarinn Tyree Glenn spiluðu með íslenskum djössurum í desember 1951. Og þegar Gunnar Ormslev hljóðritaði sína frægu útgáfu á sænska laginu Frá Vermalandi snemma árs 1952 var Guðmundur R. við settið. Þannig gæti ég lengi haldið áfram að telja upp en læt hér staðar numið, en niðurstaðan er augljós: Guðmundur R. Einarsson var fyrsti alvörutrommarinn í íslenskum djassi og vegna þess að djass þeirra tíma var líka danstónlist og ríkjandi alþýðutónlist þá var hann fyrsti alvörutrommari Íslands.

Og hann var í fremstu röð í meira en hálfa öld, með persónulegan og afar músíkalskan stíl. Engum trommara hef ég spilað með sem gat með snerlinum einum hljómað eins og heil slagverksdeild. Það var svo mikill þéttleiki í bítinu hjá honum, með góðu ,,dræfi” og svingaði alltaf feitt. Guðmundur er skapmaður og aldrei lognmolla í kringum hann og skapið kom sem betur fer fram í spilinu. Þegar hann var með allt settið gat stundum heyrst vel í honum, hann var ekkert í felum, enda ekki ástæða til.Við altspiluðum í mörg ár með Kristjáni Magnússyni píanóleikara og þá kynntumst við í alvöru. Seinna fékk ég hann til að spila með mér í mínum böndum á tónleikum og í plötuupptökum. Einn af bestu djassbásúnistum Bandaríkjanna, Frank Lacy, hljóðritaði með okkur Guðmundi tvö lög á plötunni Landsýn, annað þeirra var lagið Þú ert. Þegar Frank heyrði trommubítið hjá Guðmundi greip hann til demparans og spilaði básúnu af því tagi sem menn gerðu á fjórða áratug síðustu aldar, með afburða árangri. Og talandi um básúnu, Guðmundur var sjálfur hörku básúnuleikari og spilaði í Sinfóníuhljómsveit Íslands á það hljóðfæri, fyrir utan að vera með einkar fallegan tón á klarínettu. Og sungið getur hann líka, hann er af þeirri kynslóð íslenskra tónlistarmanna sem voru alhliða músíkantar. Það var snemma í okkar vinskap að ég var einhvern tímann að dásama söng Hauks Morthens og segi að hann hafi nú verið með þeim bestu. Haukur? Hann gat ekki einusinni raddað í þríundum!

Við spiluðum saman í tíu ár í píanótríói Ólafs Stephensen, samanlagt örugglega 500 gigg, varlega áætlað. Og fórum saman til Færeyja, Grænlands, Bandaríkjanna, Kanada, Thailands, Malasíu, Argentínu og Chile. Það var á elsta djassklúbbi Suður Ameríku, í Santiago de Chile, sem okkur var svo vel tekið að Guðmundur fékk innblástur og steig upp frá settinu og steppaði fremst á sviðinu eins og prófessjónall dansmaður með tilheyrandi smellum og góðum takti uns þakið ætlaði að rifna af þessum virðulega djassklúbbi í fagnaðarlátunum. En ég held að ég hafi aldrei dáðst meira að Guðmundi R. Einarssyni fyrir óvænta hæfileika en á tangóklúbbi í Buenos Aires í sömu ferð. Það var um miðja nótt í tangóhverfinu San Telmo þar sem atvinnaltudanspar bauð gestum að stíga dans við undirleik hljómsveitar. Við prófuðum nokkrir og fim og flink stúlka stýrði okkur um gólfið þannig að þetta leit nú bara nokkuð vel út. En svo kom röðin að Guðmundi R. og þar var kominn maður sem lét ekki aðra telja í lagið. Hann byrjaði á fullu með hendur sínar og dömunnar í átt til himins og skálmaði með hana í glæstri sveiflu endanna á milli á þessum tangóstað eins og væri hann borinn og barnfæddur í Buenos Aires. Klappinu ætlaði aldrei að linna, Argentínumenn höfðu ekki áður séð sjötugan herramann dansa tangó af slíkum bravúr.

Stíll mannsins er maðurinn sjálfur. Maðurinn Guðmundur og bítið sem hann spilaði er af sömu rót; traust, skapmikið og öruggt með urrandi swingi. Það er afar viðeigandi að Guðmundur R. Einarsson sé heiðraður fyrir framlag sitt til tónlistarinnar, enginn íslenskur trommuleikari hefur svingað lengur og betur. En þennan glæsilega feril á hann ekki einn; hann gæti hafa misst úr bít í lífslaginu ef hún Halla hefði ekki stýrt tveggja manna hljómsveit þeirra af mýkt og festu.

Til hamingju félagi!

Tómas R. Einarsson