Birgir Jónsson - Trommari vikunnar 1.11.11 Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

Trommari vikunnar hjá okkur er orkuboltinn Birgir Jónsson. Birgir er nýkominn frá Rússlandi þar sem hann var að leika með hljómsveitinni Dimmu en ásamt því leikur hann einnig með hl

alt

jómsveitum á borð við XIII og Stafrænn Hákon. Við tókum kappann tali og lögðum nokkrar spurningar fyrir hann.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að tromma?

Ég byrjaði i fyrsta bandinu mínu þegar ég var 9 ára. Það var mikil tónlist á heimilinu mínu, pabbi er mikill trommuáhugamaður og ég held að þetta hafi bara alltaf verið í kringum mig. Allar pottar, pönnur og eldhúskollar eyðilagt þangað til ég var sendur í tónlistarskóla Kópavogs. Þar vildu menn bara kenna öllum á blokkflautur svo ég var fljótlega rekinn þaðan með þeim orðum að ég væri óþekktarangi með gott taktskyn. Lærði svo í raun að spila á trommur í Skólahljómsveit Kópavogs.
 
Frá 15-16 ára aldri hafði ég helstu tekjur mínar trommuleik og hef alltaf verið heppinn með að spila með mönnum sem eru að reka alvöru bönd. Ég byrjaði 15 ára í hljómsveitinni JóJó sem var mikil sumargleðisveit, síðan stofnaði ég Syni Raspútíns með félögum mínum úr Kópavogi.  Var í 8 manna sólsveitinni Af Lífi og Sál og svo byrjaði atvinnuferillinn fyrir alvöru þegar ég tók við af Rafni Jónssyni í hljómsveitinni Galíleó þegar hann var orðinn of veikur til að tromma. Rabbi tók mig undir sinn verndarvæng þegar ég var 19 ára og ég fékk fullt af flottum giggum í gegnum hann. Hann var svona minn mentor í þessu og ég fæ honum seint þakkað fyrir það.
 
Eftir að hafa verið í poppinu í nokkur ár þá skipti ég yfir í tónlist sem ég hafði meiri áhuga á sjálfur og hef eiginlega bara verið að spila þungarokk síðan með XIII, Dimmu og fleiri góðum. Hef svo líka spilað helling af sessjónum með allskonar fólki, Urmull, Sóldögg, osvfr, osvfr.  Ég hætti reyndar alveg að spila á alttrommur í um 13 ár á meðan ég bjó erlendis en er svo kominn aftur í þetta á fullt núna.

Hverjir voru helstu áhrifavaldar þínir?

Ég hef alltaf hrifist af krafmiklum trommurum, menn eins og Dave Grohl, Chad Smith, Dave Lombardo, Josh Freese og Brad Wilk eru mínir aðalmenn. Svo er ég mjög mikill Jeff Porcaro aðdáandi.

Af innlendum trommurum hef ég alltaf verið hrifinn af mönnum eins og Rabba Jóns, Magga Stef, Adda Ómars, Jónba og Agli Rafns. Þessar kraftvélar sem eru að keyra böndin áfram á miklu afli en samt með frábært "feel" og gott grúv. Þetta er það sem gerir góð tónleikabönd í mínum huga, maður finnur bara að það er einhver skriðdreki þarna á bakvið "tónlistarmennina".

Það eru svo margir aðrir íslenskir trommarar sem ég hrífst af þegar ég sé þá spila: Jón Geir í Skálmöld, Gummi í Sólstöfum, Kristján Breytari, Magnús Trygvason Eliassen, o.sv.fr. Halli Gulli hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, ég lærði að spila með playbacki af honum í gamla daga. Baldvin AB Aalen er líka alveg svakalega músíkalskur trommari.

Hallur Ingólfsson stórvinur minn og félagi í XIII er líka dæmi um mann sem er frábær trommari og er snillingur í að semja alveg frábærlega flotta trommuparta sem bæta alveg helling við lögin sem hann kemur að, eins og má heyra á leik hans í HAM, XIII og fleiri böndum. Mér finnst Óli Hólm vera með algjörlega frábært sánd, sérstaklega hvernig hann spilar á symbala, það kemur bara einhver ný vídd í allt sem hann spilar vegna þess hversu listavel hann leikur á gjallirnar.

En ef ég á að nefna einhvern einn sem er minn uppáhalds trommari á Íslandi þá verð ég að segja að Arnar Þór Gíslason er algjörlega á heimsmælikvarða. Hann er með allan pakkann, frábæran kraft sem drífur alla með sér, ótrúlega flotta tækni og mikla músík í sér. Það skiptir engu hvort hann er með Mugison, Láru, Dr Spock eða Pollapönki. Maðurinn er snillingur!

Hvað er á döfinni?

Ég er aðallega að spila með rokkhljómsveitinni Dimmu og er þegar þetta er skrifað á tónleikaferð í Rússlandi. Við höfum verið að spila mikið á þessu ári og erum að gefa út EP plötu núna í nóvember, svo kemur stór plata frá okkur seinna í vetur. Við erum að taka upp og spila mikið á tónleikum á næstunni.
Ég er líka að spila með Stafrænum Hákoni, var m.a. á frábærum Evróputúr með þeim í vor. Svo hef ég verð meðlimur í hljómsveitinni XIII frá 1994 sem vaknaði úr dvala fyrir 2 árum. Við gáfum út flotta plötu fyrir síðustu jól sem fékk ótrúlega góðar viðtökur, við spiluðum heilmikið í kringum það en settum bandið svo í smá frí til að hvíla markaðinn. Rokksenan á Íslandi er lítil og menn verða að passa sig á að spila ekki of mikið til að fólk fái ekki leið á manni, en það er ný plata í gerjun á þeim bænum.
 
Hvernig græjur ertu að nota?

Ég nota DW Maple Collectors Series trommur, á tvö svoleiðis sett. Eitt venjulegt og annað sem er með VLT skeljum, þ.e. það liggur langsum í trommunum sem gefur meiri botn og meira "attack", alveg ótrúlega gott trommusett. Ég reyni að nota eins stórar trommur og ég get, er ofast með 14, 16, 18 alttoms í power stærðum og 22 x 18 bassatrommu. Síðan nota ég oftast Sonor "Danny Carey Signature" sneril, 14 x 8 bronze, alveg magnað hljóðfæri sem er ótrúlega næm tromma en það er hægt að ná endalausum krafti úr henni.  Ég nota Remo Ambassador X eða Emperor X á sneril og Emperor coated á toms. PowerStroke Pro á bassatommu og nota kickport. Cymbalarnir eru Zildjian, einhver samsetning af þessum:

4 x 18-20 " A Custom Crash, 
14 " New Beat Hihat og 14.5" Hybrid hihat
20" Medium A Ride og 22" K Custom Ride
18¨Oriental Trash China og 20" A Custom China.
 
DW 9000 hardware og tvöfalda-bassatrommu pedala.
 
Síðan á ég líka Roland V-Stage TD20 rafmagnssett sem ég nota mikið til að æfa mig og í upptökur.
 
Áttu einhver holl og góð ráð fyrir þá sem eru að byrja?
 
Æfa sig með taktmæli er aðal atriðið. Ég spila t.d. mikið með playback á tónleikum með Dimmu og þá er ég með klikktrakk í in-ear mónitórum, þá er lykilatriði að geta spilað í kringum klikkið til að láta bandið ekki hljóma stirt. Þá þarf maður að vera mjög öruggur á að halda réttu tempói, t.d. er algengt að menn hraði í breikum eða viðlögum. Það er bannað!
 
Síðan finnst mér alltaf flottast ef menn spila lítið, þ.e. sleppa sér ekki í einhverjum trommubreikum heldur leggja fyrst og fremst niður kraftmikið grúv og koma svo inn með einhver breik og skreytingar til að styðja lagið. Bara að hlusta á bandið og spila með þeim.
 
Það er líka mjög góður skóli að taka upp æfingar og tónleika og hlusta/horfa á með gagnrýni. Maður er sjaldan eins góður og maður heldur og maður heyrir hluti oft öðruvísi í hita leiksins en þeir hljóma út, míkrafónar ljúga ekki!
 
Svo finnst mér líka mjög mikilvægt að hita mig upp fyrir tónleika, bara berja í platta í svona 20-30 mín. Það hitar upp hendurnar og vöðvana, ég spila frekar fast og ég er fljótur að fá krampa ef ég er ekki upphitaður. Maður nær lika góðu jafnvægi á milli tækni og krafts með því að taka tíma í þetta. 
 

Svo er bara að hafa gaman af þessu, velja sér skemmtilegt fólk til að spila með, haga sér eins og maður og mæta á réttum tíma á æfingar.

Takk Birgir!!

Dim lights Embed Embed this video on your site

Dim lights Embed Embed this video on your site

Dim lights Embed Embed this video on your site