Ludwig sneriltrommur Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

Ludwig Supraphonic & Black Beauty sneriltrommur - prófun

 

 

alt

Ludwig sneriltrommur hafa fyrir löngu sannað sig en það hefur ekki verið auðvelt að nálgast þær hér á Íslandi um áratugaskeið, ef frá eru talin nokkur ár sem verslunin Rín flutti þær inn. Þegar ég byrjaði að tromma 1975 þá var enginn umboðsaðili fyrir Ludwig lengur (Hljóðfæraverslun Poul Bernburg hafði flutt þær inn fyrir þann tíma) og er það fagnaðarefni að þær séu nú loks fluttar inn af alvöru.

 

Saga Ludwig Black Beauty nær langt aftur eða til ca. 1915 - 20. Reyndar er Black Beauty heitið upprunalega komið frá Slingerland fyrirtækinu en talið er að einungis 12 slíkar trommur hafi verið framleiddar (samkvæmt trommusafnaranum Mike Curotto). Ludwig framleiddi svipaða trommu (sem kölluð var De Luxe model) en í öllu meira magni. Trommarar á þeim tíma fóru að kalla þær Black Beauty og á endanum festist það nafn við þær, þeim hjá Slingerland til mikils ama. Ludwig Black Beauty var framleidd til ársins 1935 en þá hurfu þær af markaðnum. Það var ekki fyrr en árið 1977 að Ludwig komu með þær aftur í þeirri mynd sem þær eru enn í dag. Reyndar segir sagan að frá 1981 - 1988 hafi þær ekki verið framleiddar, allavega var ekki boðið upp á þær í Ludwig bæklingum frá ´81 - '88. Einnig finnast B/B trommur úr bronsi innanum.

Supraphonic sneriltrommurnar komu fyrst til sögunnar á 5. áratug síðustu aldar og voru bæði framleiddar úr áli og látúni (brass). Látúns Supraphonic trommurnar frá þeim tíma eru eftirsóttar enn í dag en áltrommurnar eru langtum algengari. Í dag býður Ludwig upp á bæði látún og ál útgáfu af Supraphonic trommum en þær sem við fengum til prufu eru áltrommurnar. Látún útgáfan nefnist "Supraphonic brass edition" og líkist Black Beauty í hljóm þar sem báðar eru úr látúni.

Á síðasta ári bætti Ludwig gúmmipakkningu undir löggana á trommunum og má deila um notagildi og/eða fegurð þess, en ég get ekki sagt að þetta trufli mig. Ég veit að sumir gallharðir Ludwig trommarar fíla þetta ekki en það er þeirra mál.

Ég fékk fjórar sneriltrommur til prófunar; Black Beauty 14x5" & 14x6.5" og Supraphonic 14x5" & 14x6.5". Black Beauty trommurnar eru úr látúni og nikkelhúðaðar svartar en Supraphonic trommurnar eru úr krómuðu áli. 

Supraphonic

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég tók þær upp úr kössunum er hversu flottar þessar trommur eru og þetta klassíska útlit. Ég byrjaði á 14x5" trommunni og spilaði á hana eins og hún kom úr kassanum til að byrja með. Hún hljómaði létt en ákveðin, frekar þurr (það gerir álið) sem mér finnst kostur og gormarnir svöruðu vel. Eftir altað fikta í stillingunum og herða vel á undirskinninu sem virðist alltaf virka vel á Ludwig sneriltrommur þá hljómaði þetta kvikindi alveg dúndur vel. Auðvelt að spila á hana; björt, gott "body" og þessi klassíski Supra hljómur. 

14x6.5" tromman var næst á dagskrá og hvað getur maður sagt. Ian Paice, Bonham, Bruford, birtust manni allir í einu og þessi tromma er eiginlega hin á sterum. Meira "body" og meiri tónn, þetta fræga Ludwig "honk" eins og þeir segja. Ég nett flippaði út að spila á hana en ég tek það fram að minn persónulegi smekkur hneigjist oftast í átt að dýpri sneriltrommum. Þessi tromma er algjörlega frábær, breiður loftkenndur hljómur, mikil skel í hljómnum, draumur að spila drauganótur (ghostnotes), rimshots ákveðin en ekki yfirþyrmandi, svona alveg rétt einhvernvegin. 

Fagri Blakkur

Þá var komið að Black Beauty. Borin saman við Supra þá hefur hún dekkri hljóm og blautari. Það er þyngri hljómur í henni og hún nánast kýlir mann í magann, hún er svo "punchy". 5" tromman var þurr og fremur stuttur tónn í henni sem gerir hana afar stúdíóvæna. Gormahljómurinn er afar sensitívur og veikar nótur eru skýrar og fallegar. Þegar maður neglir hana fast þá gefur þessi tromma backbeat dauðans. 

alt14x6.5" tromman hefur enn meiri lágtíðni, lengri tón og dökkan. Báðar trommurnar hafa svo sensitívan gormahljóm að þær henta eflaust einnig í klassíska tónlist. 

Ég heyrði í Jóhanni Hjörleifssyni sem er nýbúinn að fá sér eina B/B en hann var þá staddur í hljóðveri við upptökur. Hann sagði að Black Beauty tromman væri að koma hreint ótrúlega vel út í upptökum og að upptökumaðurinn hafi allur uppveðrast þegar hann heyrði hvernig hún var að skila sér yfir á tape og átti ekki til orð. Það svosem kemur ekki á óvart þar sem þessir baukar eru þekktir fyrir frammistöðu sína í stúdíói og þú sem þetta lest hefur örugglega heyrt í þessum trommum í óteljandi skipti á upptökum, bæði B/B og Supra. 

Ég hef sjálfur átt (og á) gamlar B/B sem eru annálaðar fyrir góðann hljóm. Þessar nýju Ludwig trommur eru lítið síðri og hafa það reyndar umfram þær gömlu að auðveldara er að spila á þær. 

Flest trommufyrirtæki hafa komið með sínar eigin útgáfur (lesist; stælingar) af Black Beauty sem ég hef flestar prófað, margar hverjar hinar fínustu trommur. En, það er eitthvað við originalinn, Black Beauty sem engin þeirra nær. Þessi fókuseraði, yfirvaldslegi hljómur og botn er alveg einstakur. Það er einfaldlega eitthvað "mojo" sem þessar trommur hafa sem hinar hafa ekki.

Niðurstaða

Supra og B/B eru ólík hljóðfæri. Supra bjartari og léttari, Black Beauty dekkri, fókuseraðri og þyngri. Því er ekki sanngjarnt að segja að ein sé betri en önnur. Allar eru þær mjög góð hljóðfæri sem eru "industry standard" og klikka einfaldlega ekki. Vafalaust falla þær ekki að allra smekk en sem betur fer erum við mismunandi. En fyrir mig þá vildi ég gjarnan eiga þær allar fjórar, þetta eru með bestu seriltrommum sem ég hef prófað og til viðmiðunar þá hef ég í gegnum tíðina átt milli 40 - 50 mismunandi trommur þannig að ég tel mig hafa ágætis viðmið. Og fyrir ykkur sem viljið frekar "vintage" Ludwig trommur þá fullyrði ég að þessar eru ekki síðri. Tilfinningin eftir þessa prófun er að "svona eiga sneriltrommur að hljóma".

 

Söluaðili: Tónastöðin, Skipholti 50b, sími 552 1185 www.tonastodin.is

Verð:

14x5" Supraphonic - kr. 79.000,-

14x6.5" Supraphonic - kr.85.000,-

14x5" Black Beauty - kr. 99.000,-

14x6.5" Black Beauty - kr. 109.000,-

(ATH: verð eru birt án ábyrgðar)

 

                                                                                                                                                               Mars 2012 - Halldór Lárusson