Yamaha Stage Custom trommusett - Prófun Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

Yamaha Stage Custom settin eru ekki ný af nálinni og hafa verið á markaðnum í ýmsum útfærslum um árabil. Þetta er svokölluð millitýpa frá Yamaha, ekki byrjendasett, ekki  atvinnumannasett heldur fellur það þar á milli.

Yamaha Stage CustomSettið sem ég fékk til prófunar er glænýtt birki sett og eru stærðirnar eftirfarandi:

20x17“ bassatromma, 10x8“ &  12x9“ toms og 14x14“ floor tom á löppum.

Settinu fylgir statífapakki úr 700 línunni.

Liturinn á settinu kallast Natural Wood og er ljós viðaráferð, glanslökkuð. Sneriltromman er ekki inni í þessari prófun en er afturámóti inni í verðinu hér fyrir neðan.

Fyrstu kynni:

Áferðin á settinu er falleg. Æðarnar í viðnum sjást vel í gegn og lakkáferðin er þokkalega vönduð. Öll smíði á settinu er hin fínasta; brúnir sléttar og jafnar og að innan eru trommurnar einnig fallegar. Allur frágangur er til fyrirmyndar. Bassatrommuklærnar sem halda stilliskrúfunum, bassatrommulappirnar sem og stilliskrúfufjöldinn á 14“ floor tom (sex á hvorri hlið í stað átta á dýrari settum) er það eina sem gefur til kynna að settið er ekki af dýrustu gerð frá Yamaha. Jú og kannski skinnin sem fylgja settinu. Annað er það sama og á dýrari Yamaha settum eins og tom-holder, YESS tom-tom festingabúnaðurinn og floor tom lappa festingarnar. Húðirnar sem koma með settinu eru Yamaha húðir og eru þokkalegar en ég skipti þeim reyndar fljótlega út fyrir Remo Emperor clear að ofan, Ambassador clear undir og Powerstroke 3 á bassatrommu.

700 series hardwareYamaha 700 statífa pakkinn sem fylgir settinu er afar glæsilegur og vandaður. Tvö bómustatíf (CS755), Hi-Hat statíf (HS740A), snerilstatíf (SS740A) og bassatrommufetill (FP7210A) fylgja settinu. Öll hafa statífin einfaldar lappir sem gerir þau léttari en þau eru mjög stöðug engu að síður. Það eru ekki botnplötur undir hi-hat statífi og bassatrommufetli eins og á sumum dýrari týpum. Sumum gæti fundist það ókostur, öðrum kostur. Persónulega finnst mér það ekkert verra. Það fer minna fyrir þeim saman pökkuðum og eru léttari fyrir vikið. Að öðru leyti er þetta „pro“ (afsakið slettuna) statífapakki og mjög vandaður. Boðið er upp á settin í  fimm mismunandi litum; Natural Wood, Raven Black, Matte Black, Honey Amber & Cranberry Red.

Frammistaða:

Það er afar auðvelt að stilla trommurnar og fá góðan hljóm sem segir mér að brúnir eru vel jafnar. Yamaha birki hljómurinn skein vel í gegn, mikið „punch“, þykkur og djúsí tónn sem lifir fremur stutt og fínasti kraftur í settinu öllu. Bassatromman er alveg mögnuð reyndar. Ég gerði 4“ gat á fremra skinnið og setti Powerstroke 3 á slaghliðina og ekkert inn í trommuna þar sem mér fannst þess ekki þurfa. Niðurstaðan var góður smellur og undirliggjand þykkur og þéttur botn. Frábær hljómur og betri en margar dýrari bassatrommur sem ég hef prófað. Ég lét einn félaga minn spila á settið svo ég gæti hlustað á það frá hinni hliðinni og varð ekki svikinn. Hreint frábær tromma og virkilega vel hljómandi sett.

FP7210A bassatrommufetillTom tom trommurnar hljóma sömuleiðis þykkar og „djúsí“ með skörpum tón og minna óneitanlega á Yamaha Recording Custom. Það er einfaldlega eitthvað við Yamaha og birki sem er pínu.... ómótstæðilegt?  Þó að 14“ floor tom væri útbúin einungis 6 stilliskrúfum á hvorri hlið virtist það ekki koma að sök. Það var lítið mál að stilla hana djúpa og sömuleiðis háa. Til samanburðar var ég með Yamaha Recording Custom sett við hliðina og er Stage Custom með skarpari tón (enda með skarpari brúnum en Recording) á meðan Recording settið er hlýrra og með meiri þykkt og breidd í tóninum.  En það er á hreinu að Stage Custom settið er lítill eftirbátur mun dýrari hljóðfæra og með statífa pakkanum sem fylgir (það er reyndar hægt að sleppa honum og kaupa einungis skeljarnar) er þetta virkilega flottur pakki sem hljómar vel.

Statífin svíkja ekki og eru algerlega „pro“. Bassatrommufetillinn er einfaldur og léttur og lætur ekki mikið yfir sér en hann er einstaklega kraftmikill og léttur. Eina stillingin sem ég breytti á honum var að ég strekkti aðeins á gorminum og þá varð hann alveg eins og ég vildi hafa hann. Það var mjög auðvelt að ná hröðum slögum með honum og svo pakkast hann vel saman og fer lítið fyrir honum í statífatöskunni. Annars eru statífin mjög stöðug, sterkleg, í léttari kantinum (kostur) og virkilega vönduð.

Niðurstaða: 

Virkin þrjú; Virkilega flottur pakki, virkilega vel hljómandi trommur og virkilega vönduð statíf. Hverrar krónu virði að mínu mati.

 Yamaha Stage Custom Birki trommusett

Verð: 20/10/12/14+sneriltromma og statífapakki:  kr. 239.990 (eða 189.990 án statífa)

 

Sölu og umboðsaðili:

Hljóðfærahúsið/Tónabúðin

Síðumúla 20 - Reykjavík

&

Tónabúðin Sunnuhlíð 12 - Akureyri

 

 

 

Janúar 2013   Halldór Lárusson